Ferill 908. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2089  —  908. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um kjör hjúkrunarfræðinga utan Landspítalans.

     1.      Hyggst ráðherra bregðast við hve illa gengur að manna stöður hjúkrunarfræðinga hjá mörgum heilbrigðisstofnunum með því að kanna möguleika á að bæta launakjör með nýjum útfærslum, stuðla að betra starfsumhverfi og auka tækifæri til starfsþróunar, sérstaklega hjá öðrum heilbrigðisstofnunum en Landspítalanum?
    Mönnun hjúkrunarfræðinga er einn af grundvallarþáttum til að tryggja örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Það er ekki á hendi heilbrigðisráðherra að semja um launakjör og útfærslur þeirra heldur falla þau undir kjarasamninga sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Fjármála- og efnahagsráðherra annast gerð kjarasamninga við starfsmenn ríkisins samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) í forsvari við gerð kjarasamninga með samninganefnd ríkisins. Forstöðumenn stofnana ríkisins fara svo með framkvæmd starfsmannamála innan sinnar stofnunar.
    Heilbrigðisráðherra hefur samt sem áður þegar brugðist við til að styðja við mönnun hjúkrunarfræðinga og eru þá allar heilbrigðisstofnanir hafðar í huga hvort heldur sem um er að ræða Landspítala eða aðrar heilbrigðisstofnanir. Í heilbrigðisþjónustu skiptir hver stofnun máli og er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju.
    Mönnun hjúkrunarfræðinga hefur verið í skoðun í heilbrigðisráðuneytinu um langt skeið og upplýsingar um þann vanda liggja fyrir. Afurð vinnu ráðuneytisins til að tryggja mönnun hjúkrunarfræðinga til framtíðar og til að bæta úr þeim skorti sem nú er var sett fram í 18 tillögum í minnisblaði heilbrigðisráðherra sem lagt var fram á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála 1. nóvember 2018. Vinna með tillögurnar hélt áfram undir stjórn forsætisráðuneytis og var einnig tengd tillögum frá mennta- og menningarmálaráðherra og vinnu vegna yfirlýsingar forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna. Verkefnunum var skipt niður eftir ábyrgðarsviðum ráðuneyta. Það sem snýr að starfsumhverfi og að einhverju leyti tækifærum til starfsþróunar heyrir undir heilbrigðisráðuneytið en það þarf að vinna með stofnunum ráðuneytisins.
    Ráðuneytið óskaði fyrr á árinu eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, um þau verkefni sem snúa að starfsumhverfi, svo sem stjórnunarháttum, vinnufyrirkomulagi, möguleikum til starfsþróunar, sí- og endurmenntunar, verknámsstöðum og fleiru. Heilbrigðisráðherra kynnti samantekt, sem unnin var í ráðuneytinu úr svörum stofnananna, á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála 15. ágúst 2019 og tillögur sínar um starfshópa til að fjalla um menntunarmál heilbrigðisstétta og um leiðir til að auka mönnun hjúkrunarfræðinga. Þetta mikilvæga mál var einnig tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi 28. ágúst 2019. Niðurstaðan var að stofna þrjá starfshópa um menntun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og um sérfræðinám lækna. Þá var einnig ákveðið að skipa starfshóp á vegum heilbrigðisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að koma með raunhæfar leiðir um betri mönnun hjúkrunarfræðinga og tillögur sem leitt geta til þess að hjúkrunarfræðingar haldist betur í starfi og að þeir sem farið hafa í önnur störf leiti til baka í heilbrigðisþjónustuna.
    Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 3. júní 2019 eru sett fram sjö lykilatriði. Eitt þeirra ber titilinn „Fólkið í forgrunni“ og fjallar um mannauð og starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustunni. Menntun heilbrigðisstétta er forsenda þess að hægt sé að manna heilbrigðiskerfið og veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Tilkoma náms í hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri hefur skipt sköpum við að bæta mönnun á landsbyggðinni. Má til dæmis benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar um mönnun hjúkrunarfræðinga frá október 2017. Þar kemur fram að námið hafi valdið algerum viðsnúningi í mönnun hjúkrunarfræðinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri og nærliggjandi heilbrigðisstofnunum.

     2.      Telur ráðherra að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sitji við sama borð og Landspítalinn þegar kemur að svigrúmi til þess að bæta launakjör hjúkrunarfræðinga og möguleikum þeirra til starfsþróunar og símenntunar, til að mynda með sambærilegu verkefni og Hekluverkefninu hjá Landspítalanum?
    Stofnanir á landsbyggðinni sitja við sama borð og Landspítalinn þegar kemur að svigrúmi til þess að bæta launakjör hjúkrunarfræðinga.
    Hvað varðar möguleika til starfsþróunar og símenntunar mótast það að einhverju leyti af möguleikum sem fyrir hendi eru á hverjum stað en verkefnin á landsbyggðinni eru ekki síður flókin og margvísleg en á höfuðborgarsvæðinu þó þar séu þau oft sérhæfðari. Fjölbreytt námsframboð er við háskólana og margs konar framboð á námi og símenntun. Má þar nefna að Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á fjarnám í hjúkrunarfræði bæði í grunn- og framhaldsnámi. Fjarkennsla hefur verið í boði lengi og eykur það möguleika til símenntunar um allt land auk þess sem tækniþróun skapar sífellt meiri notkun á streymi frá fundum og ráðstefnum.